17_juni

Skrifað 18 June 2010


Á þjóðhátíðardaginn nutu Dalamenn og aðrir gestkomandi góðrar dagskrár í sumar- og sólskinsskapi enda ekki annað hægt í þeirri veðurblíðu sem okkur var gefin þann daginn.  Dagskráin hófst kl. 13:00 við höfnina en þar var m.a. boðið upp á siglingar, andlitsmálun og hestaferðir.  Kl. 14:00 var haldið af stað í skrúðgöngu þar sem Dalaskátar gengu í broddi fylkingar ásamt lögregluþjóni.  Skrúðgangan lá að Dvalarheimilinu Silfurtúni þar sem Lionsmenn héldu utan um dagskrá.  Í hlutverki fjallkonunnar var Heiða Berg Díönudóttir og Eyjólfur Sturlaugsson skólastjóri flutti ávarp.  Eftir dagskrá á Silfurtúni var haldið á Miðbrautina þar sem gestir og gangandi gátu keypt kaffiveitingar hjá Lionsmönnum eða notið leiks á leikskólalóð þar sem búið var að koma fyrir uppblásnum hoppköstulum.  Á bifreiðastæði við stjórnsýsluhúsið voru "112 menn" búnir að koma fyrir öllum neyðarbílum í Dalabyggð og hátíðargestir gátu komið þar við og skoðað tækjakostinn.  Hinum meginn við götuna, þ.e. við leikskólann, var Jörundur Hákonarson með sína glæsilegu farkosti til sýnis, tvo fornbíla og Ferguson dráttarvél.  Sjá myndir í myndamöppu.