Erlendir ferðamenn í vanda á Haukadalsskarði

Skrifað 26 October 2015


Þakklætið festist á mynd

Nú er vetur skollinn á með hvítri fönn og tilheyrandi kulda. Fyrir því fengu tveir erlendir ferðamenn að finna í dag þegar þeir ætluðu að ferðast til Akureyrar eftir dvöl á Snæfellsnesi.  Fóru þeir í gegnum Dali og ætluðu beina leið yfir Haukadalsskarð sem var skráð greiðfært. Þegar ferðamennirnir voru komnir langleiðina upp á efsta punkt skarðsins reyndi á að spóla sig í gegnum skafl og misstu þeir þá bifreiðina út af.  Þar sem símasambandslaust er uppi tóku þeir til þess bragðs að ganga til byggða og þökkuðu þeir sínu sæla þegar þeir mættu bændum við Kirkjufellsrétt eftir um 5 km göngu en þeir sömu hjálpuðu til við að kalla út dráttarbíl frá KM þjónustunni.  Annar ferðamaðurinn var með auka skófatnað í bílnum og greip hann með sér þegar þeir hófu gönguna frá bílnum, það kom honum vel þegar þurfti að vaða yfir á en hinn ferðafélaginn þurfti að gera sér lítið fyrir og vaða ána berfættur.  Það voru því kaldir en þakklátir ferðamenn sem kvöddu Dali í dag en þeir sögðust ætla að koma aftur síðar að sumarlagi til að skoða veginn yfir Haukadalsskarð.