Eigendaskipti á Bjargi

Skrifað 17 April 2013


Skál!

Pálmi Jóhannsson og Anna Sigríður Grétarsdóttir eru nýir eigendur að Gistiheimilinu Bjargi í Búðardal.  Þau tóku formlega við rekstrinum í dag af hendi Vilhjálms Ástráðssonar sem í daglegu tali hefur verið kallaður Villi á pöbbnum.  Villi hefur staðið vaktina s.l. 19 ár og verið með gistiþjónustu, veitingar og haldið úti pöbbastemningu.  Árið 2002 bættust pizzur á matseðilinn á Bjargi og fékk veitingastaðurinn þá nafnið Villapizza en Bjarg hélt áfam sínum sessi sem gistiheimili.  Heimamenn hafa ýmist talað um að fara á Bjarg, Villlapizzu eða einfaldlega á pöbbinn en vitanlega er það allt sami staðurinn.

Eins og staðkunnugir vita er hinn nýi eigandi, Pálmi Jóhannsson, borinn og barnfæddur Dalamaður en Anna Sigríður er Sunnlendingur og hafa þau hjónin búið á hennar slóðum undanfarin ár.  Aðspurður segir Pálmi fyrsta verkefnið vera að mála staðinn að innan og parketleggja gistirýmið auk þess sem ný rúm hafa verið keypt fyrir gistinguna.  Þau hjónin höfðu hugað að því að fara í frekari framkvæmdir, t.d. að skipta um glugga en þar sem þau eru að detta inn á stærsta ferðamannatíma ársins verður þeim framkvæmdum frestað um sinn. 

KM þjónustan þakkar Villa góð viðskipti, ánægjuleg samskipti, góð pizzahlaðborð, hressandi pöbbakvöld, luftgítarstemmara og margt fleira sem hefur átt sér stað þau ár sem fyrirtækin hafa verið samferða í rekstri sínum í Búðardal.

Þá bjóðum við Pálma og Önnu Sigríði hjartanlega velkomin í Dalina og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Skál!

- SM