Ferðamaðurinn

Skrifað 12 August 2011


Þakklæti ferðamannsins.

Ferðamaðurinn blessaður lendir oft í ógöngum á leið sinni og oftar en ekki kemur þá KM-þjónustan til hjálpar.

Hvort sem vandamálin eru stór eða smá þegar það næst að leysa þau að þá er þakklætið oftast til staðar. Sérstaklega þegar þau dúkka upp um helgar og aðra frídaga, enda er sennilega enginn sem vill standa í slíku veseni þegar maður er í fríi og á að vera njóta lífsins.

En þó að flestir séu mjög þakklátir þá getur það komið upp að maður fær vont viðmót og nánast ekkert þakklæti. Þó að vandamálið sé stórt og mikil fyrirhöfn sé í kringum það. En þetta er sjaldgæft og virðist oftast tengjast því þegar á að fara gera upp vinnuna og borga.

En við mannskepnurnar erum jafn misjafnar og við erum margar.

En aftur að þakklætinu.

Einn góðan laugardag í júlí stóð Hjörtur kranabílavaktina og var að hoppa út um dyrnar eftir að hafa sótt bilaðan bíl í Gilsfirðinum. Í dyrunum mætti hann breskum manni af nafni Bill sem tjáði honum að hann væri með sprungið dekk undir húsbíl hjá sér. Ekki málið...dekkinu var vippað inn á gólf, skipt um ventil og dekkinu þrumað undir bílinn á nýjan leik. Bill borgaði með bros á vör og Linda konan hans kom færandi hendi með kaffi út úr húsbílnum.

Var kaffið sötrað, spjallað um Ísland og ferð þeirra hjóna sem og húsbíllinn skoðaður í þaula og þau hjónin áttu ekki orð til að lýsa þakklæti sínu þó að viðgerðin væri lítil og tæki stutta stund.

En svona smá fróðleiksmolar um þau hjón.

Bill og Linda koma frá Camebrigde á Englandi og eru búin að ferðast um allan heiminn á sínum forláta húsbíl síðan árið 1987 (sirka). Á sirka 2-3 ára fresti leggja þau upp í ferðalög og fara þá oftast að heiman í 6-12mán. Þetta árið lögðu þau í hann í mars/apríl og fara ekki heim fyrr en í september. Á ferðalögum sínum kúpla þau sig algjörlega frá sínu venjulega umhverfi, þ.e.a.s. engar fréttir, ekkert sjónvarp, aðeins sími í neyðartilfelli og Bill fer á netið og bloggar og lætur vita af sér á 10-14 daga fresti.

Þegar þau voru búin að þakka Hirti fyrir þjónustuna og smella af honum myndum sem Bill sagðist ætla setja inn á síðuna með næsta bloggi að þá sögðust þau vera á leiðinni á Ísafjörð. Hjörtur minntist á það við þau að foreldrar hans væru einmitt líka á leiðinni á Ísafjörð á sínum forláta Chevrolet Bel Air árg 55. Svoleiðis bíll sker sig vel úr fjöldanum enda þegar foreldrar Hjartar mættu á tjaldsvæðið á Ísafirði vatt Bill sér upp að þeim og þakkaði þeim fyrir drenginn sem að lagaði fyrir þau dekkið á húsbílnum.

Þetta kallar maður þakklæti.

Svo er hérna linkur á síðu þeirra hjóna sem mjög fróðleg og skemmtilegt að lesa:  http://web.mac.com/billinda1

HJ