Öðru hverju eru settar inn nýjar myndir í mánaðarmöppur undir hnappnum 'myndir' auk þess sem eitthvað hefur verið sett inn af eldri myndum úr starfi KM þjónustunnar.
Nú eru komnar myndir frá Haustfagnaði í Dölum í myndaalbúmið. Því miður náðum við KM-ingar einungis myndum af tveimur af þeim fjölmörgu hljómsveitum sem tróðu upp á hinum mögnuðu rokktónleikum Slátrinu og einnig varð lítið um myndatökur á öðrum viðburðum. Ef einhver lumar á skemmtilegum myndum frá hátíðinni og vill leyfa okkur að njóta til birtingar hér þá er fólk vinsamlegast beðið um að hafa samband við KM karla í KM þjónustunni.
Í dag flutti KM þjónustan hús frá Búðardal að Magnússkógum, nánar tiltekið frá Ægisbraut 5. Flutningurinn gekk vel þrátt fyrir mikið hvassviðri en aðgerðn tók u.þ.b. 3 klst. frá því að húsið var híft á flutningabíl þar til það var látið síga á grunninn í Magnússkógum. Helgi frá HSK krönum sá um að lyfta húsinu og Gummi lögga fylgdi flutningnum eftir með blikkandi bláum ljósum. Hægt er að sjá myndir í september möppu undir myndahnappnum.
Fimmtudaginn 20. ágúst var haldið í hann að Þórshöfn með búslóð nýráðins sveitarstjóra Langanesbyggðar, Gunnólfs Lárussonar fyrrum sveitarstjóra Dalabyggðar. Farið var af stað frá Búðardal um kl. 15:00 og komið til Þórshafnar kl. 23:30, þá voru að baki nærri 615 km. Á föstudagsmorgni var búslóðin losuð og haldið að Sauðanesi við Langanes þar sem fyrirtækið Skör er til húsa. Þar er framleiddur spænir úr rekaviði og fylltu KM menn flutningabíl og vagn af spæni sem KM þjónustan mun hafa til sölu í verslun sinni í vetur. Í allt reyndist þetta vera 12, 5 tonn af íslenskri framleiðslu.
KM þjónustan hefur nú endurnýjað kranabílinn. Eigendur fyrirtækisins gerðu sér ferð alla leið á Reyðarfjörð til að sækja gripinn og var hann kominn í Búðardal um kl. 3:30 á laugardagsmorguninn 22. ágúst... eða nóttu! Fyrsta útkall á nýjum bíl var síðan um miðjan laugardaginn en þá hafði bíll oltið á Skógarströnd. Annað útkall barst stuttu seinna sama dag frá nágrenni Háafells í Miðdölum, þar var fólk í berjamó og varð fyrir því óláni að bifreið þeirra varð rafmagnslaus. Starfsmenn KM þjónustunnar eru að vonum ánægðir með nýjan bíl enda viðbúið að hlutverk þjónustubifreiðar geti orðið viðameira með aukinni umferð um Dali.
Nú eru komnar nýjar myndir í júlí- og ágústmöppur á myndasíðunni auk mynda frá tökum á kvikmyndinni Laxdæla Lárusar Skjaldarsonar.
Veðurblíðan hefur leikið við okkur undanfarið og hitinn jafnvel mælst vel yfir 20°C. Svo virðist sem ísvélin í verslun Samkaupa hafi ekki alltaf þolað álagið, enda mikil íssala á svona dögum, og nokkrum sinnum hefur starfsfólk þurft að hvíla hana frá gráðugum ísgleypum. Það er gaman að sjá mannlífið blómstra á svona dögum og gott rennsli er í verslun, bakarí, pizzustað og kaffihús auk þess sem önnur fyrirtæki hafa nóg fyrir stafni. Aðilar frá kvikmyndafyrirtækinu Poppoli hafa komið sér fyrir í Búðardal ásamt úrvalsliði leikara og annarra sem koma að upptökum á nýjustu kvikmynd Dalamannsins og leikstjórans Ólafs Jóhannessonar. Það á eflaust eftir að verða fín skrautfjöður í hinu blómstrandi mannlífi Dalanna.
Það var nóg að gera á kranabílnum frá kvöldi 7. júlí og fram eftir morgni 8. júlí.
Þetta byrjaði á því að redda þurfti eiganda hjólhýsis sem var staddur í Laxárdal með sprungið dekk en ekkert varadekk. Binni fór á kranabílnum og reddaði málunum.
Í öðru útkallinu var bilaður bíll á þjóðveginum við Hrútsstaði. Binni flutti hann á kerru aftan í kranabílnum til viðgerðar í KM þjónustuna.
Þriðja útkallið kom upp úr miðnætti. Lögreglan kallaði út kranabíl frá Búðardal vegna bifreiðar sem hafði verið stolið í Borgarnesi þá um nóttina ásamt hjólhýsi. Binni og Tobbi sáu um flutning í Borgarnes þar sem bifreiðin var sett í geymslu lögreglunnar. Sjá nánar frétt á mbl.is um málið: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/08/stal_bil_og_hjolhysi/
Fjórða útkallið var vegna bilunar í bíl á Laugum í Sælingsdal. Nonni fór sína fyrstu ferð á kranabílnum og flutti bifreiðina í Búðardal þar sem viðgerð fór fram.
Sunnudaginn 5. júlí var dráttarbíll frá Króki í Reykjavík sendur að Laugum í Sælingsdal til að sækja fellihýsi með bilaðan hjólabúnað. Það vildi ekki betur til en svo að Króksbíllinn festist utan vegar meðan á aðgerðum stóð. Króksmenn settu sig í samband við lögreglu sem kallaði út kranabíl frá KM þjónustunni í Búðardal, stoltan GMC af árgerð 75. Kalli fór á vettvang á Krana gamla og spilaði dráttarbíl Króks upp svo þeir gætu lokið ætlunarverki sínu og fellihýsið komst að lokum til Reykjavíkur.
Laugardaginn 4. júlí fór Kalli af stað á kranabílnum að sækja bíl í nágrenni Lauga í Sælingsdal. Þar var umræddur bíll farinn að haga sér einkennilega og bílstjórinn var þá fljótur að átta sig á því að hann hafði tekið rangt eldsneyti í Búðardal. Hann hafði dælt bensíni á díselbílinn, margar krónur sem fóru fyrir lítið þar. Bíllinn var fluttur í Búðardal og dælt af honum í KM þjónustunni á næsta virka vinnudegi. Svona mistök virðast alltof algeng og það lítur út fyrir að þeim hafi fjölgað eftir að bensín- og díseldælur voru settar undir sama hatt í stað þess að vera aðskildar áður fyrr. Það má velta því fyrir sér hvort bensínstöðvar gætu dregið úr þessum kostnaðarsömu mistökum með því að auka við merkingar á eldsneytistönkum.