Mótmælandi í Búðardal

Skrifað 19 April 2013


Bíllinn kominn á bílaplan skammt frá Blómalindinni

Þegar starfsmenn KM þjónustunnar mættu til starfa í morgun blasti við þeim heldur undarleg sýn en á plani fyrirtækisins stóð gamall pallbíll með mótmælaskilti á pallinum ásamt fánastöng og flaggað í hálfa.  Bílnum var komið fyrir í gærkvöldi og staðsetningin hefur augljóslega verið valin með það fyrir augum að vefmyndavél Búðardalur.is næði að fanga gjörninginn og miðla honum þannig á veraldarvefinn. Snemma í morgun mætti lögregluþjónn á svæðið og gerði fánann upptækan en einhver hluti fánalaganna virðist hafa verið brotinn.  Heimildir eru þó fyrir því að fáninn hafi verið tekinn niður fyrir nóttina og flaggað á ný eldsnemma í morgun.  Texti skiltisins inniheldur ádeilu á það að þingmenn geti skipt um flokk á miðju kjörtímabili og þó haldið þingsæti sínu.  Á skiltinu er lesendum bent á að gúgla/google "hentifánaþingmaður" og "ástundun hórdóms" en þá finna þeir skrif Svavars Garðarssonar frá 8. nóvember 2012 á www.skessuhorn.is  og skrif frá 28. desember 2006 á www.visir.is.  Þess skal getið að KM þjónustan er ekki þátttakandi í gjörningnum þó svo að bílnum hafi upphaflega verið lagt á plani fyrirtækisins en síðar var hann færður á bílaplan skammt frá Blómalindinni og Samkaupum.  Umrætt skilti má sjá á ljósmyndum í myndamöppu aprílmánaðar.

-SM