Útkall á Holtavörðuheiði

Skrifað 13 April 2015


Enn skella á vonskuveður og því fékk fólk að finna fyrir á Holtavörðuheiði í gær.  Þar skapaðist ófremdarástand þegar 12 bílar lentu í árekstri og 2 menn slösuðust þegar vöruflutningabíll keyrði inn í öngþveitið.  Báðir kranabílar KM þjónustunnar voru sendir á vettvang auk kranabíls frá SG verki á Borðeyri. Binni fór á öðrum KM bílnum en Villi á hinum en hann gerði sér lítið fyrir og dreif sig af stað frá Laxárdalsheiði þar sem hann hafði verið í góðra vina hópi í sleðaferð.  Hjörtur keyrði á móti honum með kranabílinn og skiptust þeir á bílum á miðri leið.   Í heildina voru 9 bílar fluttir á vélaverkstæðið SG verk á Borðeyri og einn bíll var fluttur í Borgarnes.  Auk þess voru fleiri bílar lítillega skemmdir en í aksturshæfu ástandi.  Sjúkrabílar voru einnig sendir á vettvang frá Búðardal en þegar á reyndi var aðeins annar bíllinn notaður í flutning.