Heim í Búðardal

Skrifað 9 July 2012


Á leið sinni um Dali hafa margir eflaust orðið varir við aukinn sýnileika lögreglunnar.  Fyrir ekki alls löngu var rætt um lögreglulausan Búðardal og einna frægast er atriðið þeirra Spaugstofumanna þar sem þeir breyttu gamla textanum Er ég kem heim í Búðardal og gerðu grín að því frelsi sem þótti skapast þegar laganna verðir höfðu yfirgefið svæðið.  En nú er tíðin önnur, það er lögregla í Búðardal og starfar í sameinuðu embætti undir yfirskriftinni Lögregla Borgarfjarðar og Dala.  Síðast liðna helgi má segja að það hafi bæst við liðsaukann en við verkstæði KM þjónustunnar í Búðardal stendur hvít Lancer bifreið, skreytt bláum og rauðum röndum með ljósum á toppnum.  Þó er ekki um eiginlegan lögreglubíl að ræða heldur er þetta uppátæki KM manna og liður í bæjarhátíðinni Heim í Búðardal.  Í þessum hluta þorpsins var fólki uppálagt að skreyta með rauðu og bláu og því lá beinast við að útbúa lögreglubifreið við verkstæðið.  Þótt markmiðið hafi fyrst og fremst verið að skemmta sér og sínum þá náði gjörningurinn einnig að hægja vel á umferð í gegnum bæinn sem gaf af sér enn meiri ánægju meðal íbúa.  Fyrir stuttu var sett upp vefmyndavél og vísar hún yfir svæðið, vefmyndavélin er hýst á svæðinu www.budardalur.is
- S.M.