NýjaBlogEntry

Skrifað 26 May 2016


Eins og kemur fram á fréttaveitunni skessuhorn.is fór dráttarbíll KM þjónustunnar í útkall upp á Haukadalsskarð á þriðjudagskvöldið. Voru þar á ferð erlendir ferðamenn, karl og kona, og höfðu þau fest bílinn í snjóskafli þegar þau voru komin nánast alla leið upp á skarðið. Hjónin voru á ferðinni frá Ólafsvík og ætluðu til Akureyrar og notuðu Google Map til að fara stystu leiðina eins og sjá má á fréttinni á Skessuhorni:

Erlend hjón lentu í hremmingum á þriðjudagskvöldið þegar þau ætluðu frá Ólafsvík og norður til Akureyrar.  Hjónin óku sem leið lá um Dali og treystu á Google Map til að finna stystu leiðina til Akureyrar. Þau voru á fjórhjóladrifnum bíl og voru komin langleiðina upp á skarðið þegar þau festu bílinn í snjó en ekki er um heilsársveg að ræða. Ekki vildi betur til en svo að lækur rann undir skaflinum og hafði hann myndað holrúm, skaflinn gaf sig undan þunga bílsins og sat hann þá fastur. Þar sem símasambandslaust er á þessum slóðum gekk maðurinn til byggða en konan beið í bílnum.  Svo virðist sem ferðalag mannsins hafi tekið yfir fjórar stundir þar til hann náði loks í Búðardal. Þar leitaði hann sér aðstoðar og var þá haft samband við dráttarbílaþjónustu KM þjónustunnar sem fór á vettvang og dró bílinn upp úr skaflinum ásamt því að fylgja ferðalöngunum niður á þjóðveginn aftur.

Með auknum ferðamannastraumi virðist það færast í aukana að erlendir ferðamenn komi af Snæfellsnesinu og yfir í Dali á leið sinni norður í land og reyni þá við Haukadalsskarðið með misjöfnum árangri. Einnig er talsvert um óhöpp á leiðinni um Skógarströnd enda um slæma malarvegi að fara sem erlendir ferðamenn  hafa líkast til litla eða enga reynslu af að aka.