Stormur

Skrifað 31 July 2012


Félagar úr Stormi

Gönguhópurinn Stormur er virkur gönguhópur Félags eldri borgara í Dölum en í þann hóp eru allir eldri borgarar velkomnir.  Hópurinn hittist á mánudögum og föstudögum kl. 10:30 við hús Rauða krossins í Búðardal og heldur af stað í hressandi göngu.  Gangan endar ævinlega á sama stað, í Rauða kross húsinu, þar sem menn drekka kaffi og "leysa málin" eins og sagt er.  Söngur fær gjarnan að hljóma eftir vel heppnaða göngu og grannt er fylgst með afmælisdögum félaganna, ef svo ber undir að vikan geymi afmælisdag einhvers göngugarpsins er afmælissöngurinn samviskusamlega sunginn.  Þegar mæting hefur verið sem best hafa 16 manns stormað um götur Búðardals en eins og gefur að skilja sveiflast talan eitthvað milli daga.  Allt sem félagið gerir er unnið í sjálfboðavinnu.
- S.M.