Vestfjarðavíkingurinn

Skrifað 9 July 2012


Bæjarhátíðin Heim í Búðardal fór vel fram og segja má að Vestfirðir hafi teygt sig örlítið inn á Vesturlandið.  Hinir síkátu Vestfjarðavíkingar glöddu gesti og gangandi með nærveru sinni en þetta árið fékk Búðardalur að njóta þess að fá víkingana heim og keppa í tveimur greinum, uxagöngu og steinatökum.  Í kynningu á fyrri keppnisgreininni, uxagöngunni, hafði Magnús Ver Magnússon orð á því að Búðardalur væri nú orðið einskonar hlið inn á Vestfirði en með tilkomu Þröskulda eiga þessi orð vel við því nú fer umferð að mestu leyti í gegnum Dali, hvort sem er á sunnan- eða norðanverða Vestfirði.  Mikil stemning skapaðist í kringum keppnina en keppendur sem og heimamenn voru hæstánægðir með fjölda áhorfenda.  Vestfjarðavíkingur ársins er Hafþór Júlíus Björnsson og er þetta þriðja árið í röð sem hann hampar titlinum. Dalamaður náði öðru sæti en það var Stefán Sölvi Pétursson sem mun þá líkast til vera sterkasti maður Dalanna en bróðir hans Úlfur Orri Pétursson náði 8. sæti í keppninni.  Í þriðja sæti var Georg Ögmundsson.  Þetta var í 20. sinn sem Vestfjarðavíkingurinn var haldinn og samkvæmt okkar heimildum var nú í fyrsta sinn farið með keppnina út fyrir Vestfirði, þ.e. í Búðardal og á Stykkishólm en á Vestfjörðum var keppt um borð í ferjunni Baldri, á Patreksfirði, Tálknafirði, Bjarkarlundi og Reykhólum.
- S.M.