17. júní

Skrifað 18 June 2010


Á þjóðhátíðardaginn nutu Dalamenn og aðrir gestkomandi góðrar dagskrár í sumar- og sólskinsskapi enda ekki annað hægt í þeirri veðurblíðu sem okkur var gefin þann daginn.  Dagskráin hófst kl. 13:00 við höfnina en þar var m.a. boðið upp á siglingar, andlitsmálun og hestaferðir.  Kl. 14:00 var haldið af stað í skrúðgöngu þar sem Dalaskátar gengu í broddi fylkingar ásamt lögregluþjóni.  Skrúðgangan lá að Dvalarheimilinu Silfurtúni þar sem Lionsmenn héldu utan um dagskrá.  Í hlutverki fjallkonunnar var Heiða Berg Díönudóttir og Eyjólfur Sturlaugsson skólastjóri flutti ávarp.  Eftir dagskrá á Silfurtúni var haldið á Miðbrautina þar sem gestir og gangandi gátu keypt kaffiveitingar hjá Lionsmönnum eða notið leiks á leikskólalóð þar sem búið var að koma fyrir uppblásnum hoppköstulum.  Á bifreiðastæði við stjórnsýsluhúsið voru "112 menn" búnir að koma fyrir öllum neyðarbílum í Dalabyggð og hátíðargestir gátu komið þar við og skoðað tækjakostinn.  Hinum meginn við götuna, þ.e. við leikskólann, var Jörundur Hákonarson með sína glæsilegu farkosti til sýnis, tvo fornbíla og Ferguson dráttarvél.  Sjá myndir í myndamöppu.

Lesa alla fréttina

Sjómannadagurinn

Skrifað 5 June 2010


Í Búðardal var tekið forskot á sjómannadaginn og sérstök sjómannadagshátíð haldin degi fyrr, á laugardegi.  Að venju fór dagskráin fram við höfnina og var í höndum Björgunarsveitarinnar Óskar.  Keppt var í brettahlaupi og koddaslag og keppendur sáu svo sannarlega um að kitla hláturtaugar áhorfenda.  Björgunarsveitinni var færð gjöf frá Lionsmönnum og var það Þorkell Cýrusson formaður sem afhenti Birni Antoni Einarssyni formanni Björgunarsveitarinnar nætursjónauka.  Eftir það var boðið upp á siglingar í Hvammsfirðinum.  Í Leifsbúð gat mannskapurinn sest niður og gætt sér á sjávarfangi, kaffi og ýmsu öðru girnilegu.  Hægt er að sjá myndir í myndamöppu.

Lesa alla fréttina

Áburðarferð

Skrifað 3 May 2010


Nú fara áburðarflutningar á fullt, keyrt er frá Grundartanga, Hvammstanga en þó aðallega frá Hólmavík.  Tekin var skorpa á laugardagin 1. maí en þá fóru Binni, Tobbi og Kalli á þremur Scanium og gerðu góðan túr. Var borðað í Baulunni og kaffi hjá Gunnari og Kristjönu á Hólmavík. Myndir í maí möppu úr þeirri ferð.

Lesa alla fréttina

Gleðilegt sumar

Skrifað 22 April 2010


Þá er komið sumar þótt enn virðist vera nokkuð í sumarstemninguna í veðráttunni.  Það má segja að dagur og nótt hafi frosið saman í Dölum og samkvæmt gamalli hjátrú ætti það að gefa okkur gott sumar.

Lesa alla fréttina

Gleðilega páska

Skrifað 6 April 2010


Gleðilega páska. Við erum með myndir af gosinu fræga á Fimmvörðuhálsi en þeir félagar Tobbi og Unnsteinn gerðu sér ferð þann 1. apríl s.l. til að skoða "túristagosið".  Hægt er að sjá myndir frá þeim í apríl myndamöppu.

Lesa alla fréttina

KM þjónustan 10 ára - opið hús

Skrifað 17 March 2010


Í tilefni af 10 ára afmæli KM þjónustunnar er viðskiptavinum boðið að fagna með okkur laugardaginn 20. mars n.k. og þiggja léttar veitingar að Vesturbraut 20, kl. 19:00-22:00.  Það verður kósý stemning og boðið upp á lifandi tónlist að hætti Dalamanna.  Opið verður á Bjargi eftir klukkan 22:00.

Lesa alla fréttina

Við erum 10 ára!

Skrifað 8 March 2010


KM þjónustan átti 10 ára afmæli 1. mars og því var fagnað s.l. sunnudagskvöld með því að bjóða starfsmönnum og mökum að Hraunsnefi í Borgarfirði.  Sveinn á Staðarfelli sá um að koma mannskapnum milli staða, en á Hraunsnefi átti hópurinn saman góða stund yfir mat og drykk.  Þann 20. mars er stefnt að því að hafa opið hús í húsnæði KM þjónustunnar þar sem sveitungum og öðrum viðskiptavinum verður boðið upp á léttar veitingar, nánar auglýst síðar.  Hægt er að sjá myndir frá Hraunsnefi í myndamöppu marsmánaðar.

Lesa alla fréttina

Ófært í Reykhólasveit.

Skrifað 25 February 2010


Ófært í Reykhólasveit við Geiradalsá (SMUGUNNI eins og menn kalla hana).  Bens frá Ingileifi var pikkfastur í skafli en bílstjórinn var með jarðýtu á pallinum og notaði hana til að ýta snjónum frá og draga svo Bensinn upp.  Það tók um sjö klukkutíma að ná honum upp (myndir í febrúarmöppu).

Lesa alla fréttina

Slökkviliðsæfing

Skrifað 20 February 2010


Slökkviliðsæfing var í Búðardal 20. febrúar þar sem allir bílar voru prófaðir, slöngur tengdar, vatni og froðu sprautað.  Allt gekk vel og slökkviliðsskúrinn var þrifinn að lokum.  Sjá myndir í myndalbúmi (febrúarmappa).

Lesa alla fréttina

Bílvelta við Valþúfu

Skrifað 20 February 2010


Bílvelta var við Valþúfu á föstudaginn 19. febrúar.  Lögreglan bað um kranabílinn þar sem Opel bíll hafði hafnað 18 metum fyrir utan veg.  Spila þurfti bílinn upp og fara með hann í KM.  Sjá myndir í myndalbúmi (febrúarmappa).

Lesa alla fréttina

117 18 19 20 21 22