Vélaborg verður með Zetor dráttarvélasýningu á plani KM þjónustunnar á morgun 23. september frá kl. 16:00-20:00. Af því tilefni verður verslun KM þjónustunnar opin til kl. 20:00.
Í vikunni var tekið á því í KM þjónustunni og gólfið í bragganum steypt. Áður hafði farið töluverð vinna í að hreinsa út úr bragganum og hann sprautaður að innan, Kalli og Binni sameinuðust í því verki. Það komu margir að steypuvinnunni sjálfri en þar voru Gösli múrari, Bjarni á Leiðólfsstöðum, Gubbi í Magnússkógum, Gústi í Hjarðarholti, Kiddi Thorlacius og Binni í KM. Veðrið var ekki að auðvelda verkið því inn á milli var gríðarlegt úrhelli en menn létu það ekki trufla framgang vinnunnar og héldu gleði sinni allan tímann. Myndir frá framkvæmdum eru komnar í myndamöppu
Í sumar urðu þær breytingar hjá KM þjónustunni að Karl Ingi keypti hlut þeirra Unnsteins og Þorbjarnar í fyrirtækinu en þeir ætla báðir að einbeita sér að búskap ásamt öðrum störfum. Unnsteinn flutti sig yfir að Klúku í Strandasýslu ásamt fjölskyldu sinni þar sem hann skartar nú starfsheitinu bóndi. Þorbjörn sinnir áfram störfum í vöruflutningum hjá Vörumiðlum samhliða störfum sínum sem bóndi að Harrastöðum. Starfsmannahald breytist lítið en þó hafa tveir nýir starfsmenn tekið til starfa í verslunardeildinni en það eru Steinunn Matthíasdóttir og Sigurður Sigurbjörnsson en þau koma m.a. til með að taka við störfum Unnsteins sem hættir um næstu mánaðarmót. KM drengirnir hafa átt gott samstarf og KM Karlinn þakkar þeim bændum kærlega fyrir öll góðu samskiptin, fíflaganginn og allt það sem hefur gert vinnuna að góðum leikvelli þeirra drengja.
Í júlímöppu eru komnar myndir frá ævintýralegri sjóferð út Hvammsfjörð en báturinn endaði vélarvana og þá reyndi á hjálpsemi þeirra sem á landi voru og stóð ekki á því. Þeir Sveinn á Staðarfelli og Maggi Jóns voru meira en tilbúnir til að bregðast við og náðu að með góðu að draga bátinn í land á flotta dráttarbátnum hans Sveins. Maggi fór með bensín frá Búðardal að Staðarfelli og þaðan sigldu þeir Sveinn út þar til þeir náðu til bátsverja sem höfðu þá verið á reki í tæpa 2 klukkutíma. Vel fór um alla fyrir utan að KM frúin var farin að finna fyrir sjóveiki en talsverð undiralda var með tilheyrandi vaggi, þá var ráð að leggjast fyrir og reyna að hafa það gott. Reyndar voru áhyggjur meiri af af því hvernig hún færi að ef þessi veltingur drægist á langinn og kæmi að því að þurfa á salerni :) Sífellt varð betra í sjóinn eftir því sem nær dró landi og voru menn strax farnir að hugsa til næstu ferðar. Eftir að landi var náð var komið við á Staðarfelli þar sem Þóra tók á móti hópnum með myndarlegum málsverði og þegar allir voru orðnir endurnærðir flutti Maggi hópinn til Búðardals. Kalli, Steina og Steinar þakka kærlega fyrir sig!
Veðrið er sígilt umfjöllunarefni og ekki síst þegar það er búið að haga sér líkt og var í vikunni. Við höfum fengið fallega sólardaga, hvort sem er með vel þekktum blæstri eða logni, og svo hefur sjaldséð þoka heldur betur látið sjá sig. Það er ekki algengt að þokan nái yfir í Búðardal en þó er það búið að gerast óvenjuoft þetta árið, hún getur alveg verið sjarmerandi í hófi. Nokkrar þokumyndir hafa fengið að rata í myndaalbúm júlímánaðar ásamt myndum af fallegri kvöldbirtunni.
Myndarlegur selur hefur haldið til við Búðardal frá því í vor en hann stillir sér iðulega upp á Skarfaskeri þar sem hann kúrir og virðist mæna út Hvammsfjörðinn. Við fengum þessa mynd að láni frá Björk Gunnarsdóttur, sjá stærri mynd í myndaalbúmi júlí mánaðar.
Nú er komin ný sending af léttum fatnaði í KM þjónustuna. Um er að ræða golf boli, sokka, vettlinga, létta jakka og húfur. Fyrir höfum við verið með vinnutengdan fatnað eins og vinnuvettlinga, vinnugalla, skófatnað og herrasokka.
Léttir fingravettlingar á börn frá 310 kr.
Ungbarnasokkar 5 í pakka 900 kr.
Mjúkir ungbarnasokkar 2 í pakka 650 kr.
Dömusokkar 3 í pakka 900 kr.
Léttir jakkar XL 4900 kr.
Þunnir jakkar XS-XXL 3300 kr.
Bolir S-XXL frá 1600 kr.
Það er eflaust hægt að segja að sumardagurinn fyrsti stígi léttan dans með vetri konungi en snjórinn minnir létt á sig í Dölum og heldur kaldur vindur blæs og því er ráð að klæða sig almennilega ef njóta á útivistar. Dalamenn fagna sumri með setningu Jöfragleði en það er gert annað hvert ár á móti bæjarhátíðinni Er ég kem heim í Búðardal sem verður þá næst sumarið 2014. Við í KM þjónustunni óskum ykkur góðrar skemmtunar á Jöfragleði og gleðilegs sumars!
Þegar starfsmenn KM þjónustunnar mættu til starfa í morgun blasti við þeim heldur undarleg sýn en á plani fyrirtækisins stóð gamall pallbíll með mótmælaskilti á pallinum ásamt fánastöng og flaggað í hálfa. Bílnum var komið fyrir í gærkvöldi og staðsetningin hefur augljóslega verið valin með það fyrir augum að vefmyndavél Búðardalur.is næði að fanga gjörninginn og miðla honum þannig á veraldarvefinn. Snemma í morgun mætti lögregluþjónn á svæðið og gerði fánann upptækan en einhver hluti fánalaganna virðist hafa verið brotinn. Heimildir eru þó fyrir því að fáninn hafi verið tekinn niður fyrir nóttina og flaggað á ný eldsnemma í morgun. Texti skiltisins inniheldur ádeilu á það að þingmenn geti skipt um flokk á miðju kjörtímabili og þó haldið þingsæti sínu. Á skiltinu er lesendum bent á að gúgla/google "hentifánaþingmaður" og "ástundun hórdóms" en þá finna þeir skrif Svavars Garðarssonar frá 8. nóvember 2012 á www.skessuhorn.is og skrif frá 28. desember 2006 á www.visir.is. Þess skal getið að KM þjónustan er ekki þátttakandi í gjörningnum þó svo að bílnum hafi upphaflega verið lagt á plani fyrirtækisins en síðar var hann færður á bílaplan skammt frá Blómalindinni og Samkaupum. Umrætt skilti má sjá á ljósmyndum í myndamöppu aprílmánaðar.
Þar sem Vörumiðlun ehf. hefur keypt flutningafyrirtækið af KM þjónustunni verða eftirfarandi breytingar á akstursleiðum: